RFV - Hausmynd

RFV

Sjóstöng

Ég er mikill áhugamaður um sjóstangaveiði.  Undanfarin ár hef ég farið að minnsta kosti  tvisvar á sumri og tekið þátt í sjóstangaveiðimótum. 

Eins og gefur að skilja þá hefur aflinn verið mjög misjafn.   Ég sé enga ástæðu til að segja frá minnsta aflanum enda er frá mjög litlu að segja.  Stoltari er ég af því þegar ég veiddi rúm 1100 kg. á Patreksfirði í fyrra.

Sumir eiga erfitt með að skilja hvað er svona skemmtilegt við að fara á sjó klukkan sex um morguninn í misgóðu veðri, kastast til á litlum bátum og reyna að standa með veiðistöng og elta einhverja fiska. 

Ég eins og þeir sem stunda sjóstöngina vitum nákvæmlega hvert svarið er.  Þetta er gaman.

Litlu mátti þó muna að ég færi aldrei aftur á sjóstöng eftir fyrri daginn á fyrsta mótinu sem ég tók þátt í.

Það var á 40 ára afmælismót Sjóstangaveiðifélags Akureyrar árið 1993. 

Það var farið frá Dalvíkurhöfn og smá hreyfing á sjónum.

Ég sá enga ástæðu til þess að taka sjóveikistöflu.  Standandi úti í fersku loft.  Ég vissi vel að ég yrði ekki sjóveikur við þær aðstæður.  Ferskt loft er besta vörnin gegn sjóveiki sem til er.

Ég hafði rétt fyrir mér, til að byrja með.  Ég fann ekki fyrir sjóveiki þegar báturinn var bundinn við bryggju og ég fann fyrir mjög litlu á meðan við sigldum út úr höfninni.

Þetta gekk í raun mjög vel þangað til við stoppuðum til að hefja veiðar.

Ég var fljótur að veiða þrjá fyrstu fiskana en þá náði sjóveikin yfirhöndinni.  Það sem eftir lifði dags fór í tvennt.  Sitja í hnipri við borðstokkinn og halla mér yfir borðstokkinn.  Ég veiddi engan fisk það sem eftir lifði dags og ég sá enga ástæðu til að fá mér af nestinu.  Það hefði hvort sem er átt mjög stutta viðkomu í maganum. 

Ég var mjög feginn að komast í land og hafa eitthvað undur fótunum sem vaggaði ekki.

Það kom fáum og allra síst sjálfum mér á óvart þegar aflatölum var dreift að ég virtist vera búin að gulltryggja mér botnsætið. 

Daginn eftir urðu bátsfélagar mínir bæði undrandi og hissa.  Ég var mættur aftur, tilbúinn til að hefja veiðar.  Svo hafði ég líka vit á því að taka sjóveikistöflu.

Einn veiðifélaginn spurði mig mjög varlega hvernig ég hefði það.

Ég svaraði því til að í dag væri ég nýr og betri maður, enda búin að kasta upp megninu af mínum innri manni.

Veiðarnar gengu mun betur seinni daginn og tókst mér að komast upp fyrir miðju í heildarafla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband