RFV - Hausmynd

RFV

Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Bakdyr

Venjulega eru veitingastaðir með glæsilegar framhliðar til að draga að sér viðskiptavini.

Kínverski veitingastaðurinn Golden Coin er líka með mjög glæsilegar bakdyr.

Hverja staðurinn vill draga til sín með því veit ég ekki.

IMG_8261

Gróðurhús

Sú var tíð að ég þekkti engin önnur glerhús en gróðurhús.

Löng lágreist hús uppfull af framandi gróðri sem myndi ekki þrífast fyrir utan húsið.

Í dag standa gróðurhúsin upp á endann.  Líklegast til að hýsa há tré.

IMG_8290
IMG_8296

Tröppurnar

Fyrir mörgum árum voru tveir Íslenskir ferðamenn á framandi slóðum.

Eftir að hafa komið við á krá og drukkið nokkra bjóra héldu þeir heim á leið.

Á leiðinni komu þeir að tröppum sem þeir ákváðu að ganga upp.

Fljótlega sagði annar þeirra að tröppurnar sem þeir væru að ganga upp væri ekki í lagi.

Það er allt of langt á milli þrepanna og það er varla nógu bratt til að það þurfi að hafa tröppur.

Hinn samþykkti það en sagði að honum þætti verst hvað handriðið væri allt of lágt.

IMG_8278
Hér má sjá umræddar tröppur.


Verksmiðjan

Ég get ekki með nokkru móti áttað mig á því hvað það er sem kemur út úr þessu ferlíki.

IMG_8283

Tvívíð mynd

Fyrir nokkrum árum heyrði ég í manni í útvarpsþætti sem sagði að hann tæki aldrei myndir á ferðalögum.  Fyrir honum voru ljósmyndir ekkert annað en tvívíð mynd af þrívíðum veruleika.

Á ferðalagi tók ég þessa mynd af tvívíðri veggmynd.

Þá telst þessi mynd væntanlega vera einvíð.

IMG_8327

Lest

Nýlega kom ég að þessari flutningalest.

Nokkurhundruð metrar af ryðguðum tönkum.

Ég hef ekki hugmynd hvað vagnarnir flytja annað en ryð.

IMG_8285

Forsögulegur geislaspilari

Í verslun sem kaupir drasl og selur antik sá ég þennan plötuspilara.

Miðað við stærð þá hefur þetta líklegast verið ferðaspilari.

Hann hefur margt framyfir nútíma tónspilara.

Það þarf aldrei að stinga í samband,  Batteríið tæmist aldrei og þú getur stjórnað hraðanum á tónlistinni.

Tónlistin hljómar best ef þú spilar hana á 78 snúningum á mínútu.

IMG_8333

Garðskálinn

Það er vart til sá bær sem ég hef komið til í Bandaríkjunum sem er ekki með garðskála.

Ég hef í raun aldrei skilið tilganginn með þeim.

Þeir eru of litlir til að fólk geti safnast saman þar.

Þeir halda kannski vatni en engum vindi.

Einhvern tíman kemur kannski að því að ég skilji þá.

IMG_8353

Vatnstankar

Á Íslandi eru skilti við flesta bæi sem láta þig vita hvað bærinn heitir.

Bandaríkjamenn nota aðra aðferð.

Allir bæir og borgir hafa vatnstank sem stendur á súlu helst upp á hól ef hann er á svæðinu með nafni bæjarins.

Það virðist ekki skipta neinu máli hversu stór bærinn er. 

Alltaf virðist vatnstankurinn vera jafn stór.

IMG_8324
Þessi tankur er við Augusta í Wisconsin


Stiginn

Oft hef ég séð stiga utaná húsum í Bandaríkjunum sem hanga í lausu lofti.

Þetta eiga að vera brunastigar og þeir eiga að fara niður þegar gengið er niður þá.

Sjálfur hef ég aldrei verið hrifin af hugmyndinni að ganga niður stiga sem hrynja niður þegar ég ætla að ganga niður.

IMG_8356

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband