RFV - Hausmynd

RFV

Ósýnilegur

Margir hafa hugsað um kosti þess að vera ósýnilegur.  Geta gert það sem manni langar án þess að nokkur sjái til.

Ég hugsaði líka þannig sem barn.  Svo las ég sögu í blaði sem breytti skoðun minni á að vera ósýnilegur algerlega. 

Blaðið sem ég las var Andrés Önd.  Það var saga um 176-671 og hina Bjarnarbófana.  Þar höfðu þeir eignast tæki sem gat gert þá og allt sem þeir vildu ósýnilegt.  Þeir gengu inn í bankann óséðir, inni í peningahvelfinguna gerðu peningana ósýnilega og gengu út með fulla poka fjár. Og enginn sá til þeirra.  Þeir settust inn í bílinn sinn sem líka var ósýnilegur og óku á brott.  Óséðir. 

Þetta hefði heppnast hjá þeim ef annar bíll hefði ekki ekið í veg fyrir þá svo þeir lentu í árekstri. 

Bjarnarbófarnir skildu ekkert í því af hverju maðurinn hafi ekið í veg fyrir þá en svo rann upp fyrir þeim ljós. 

Hann ók í veg fyrir þá vegna þess að hann sá þá ekki.

Ég lærði af þessu og ég passa mig á því að vera ekki ósýnilegur þegar ég hjóla í og úr vinnu.  Á hjólinu eru glitaugu, skært hvítt ljós að framan og blikkandi rautt ljós að aftan.  Ég er með endurskinsborða á löppunum og klæddur neongrænu vesti með stórum endurskinsborðum. 

Ég er jafn áberandi í umferðinni og upplýst jólatré.

Fyrir mér er þetta mjög augljóst.  Ég vil að ökumenn og aðrir sjái mig og fari framhjá mér hvar sem ég er. 

Þegar ég hjóla í myrkrinu, eins og ofvaxið endurskynsmerki með blikkljósum, þarf ég oft að leggja mig allan fram við að hjóla ekki aðra niður. 

Fólk sem augljóslega hefur ekki lesið sama Andrésblað og ég. 

Fólk sem er ósýnilegt í umferðinni.

Ósýnilegt fólk sem leggur sjálft sig og aðra í stórhættu á hverjum degi.

Fólk sem augljóslega gerir sér ekki grein fyrir því að stærsti ókostur þess að vera ósýnilegur er sá að það sér þig enginn.


Er einhver ósýnilegur á þessari mynd?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband