RFV - Hausmynd

RFV

Við þurfum ekki fleiri mislæg gatnamót.

Við þurfum að nýta betur það sem við höfum. 

Sumir líta á það sem lausn á öllum umferðarvandamálum að byggja fleiri akreinar og fleiri mislæg gatnamót.

Ég ætla að fullyrða að auknar vegafrækvæmdir séu óþarfar.  Stofnbrautirnar okkar anna þeirri umferð sem þær þurfa að anna og gott betur. 

Nú veit ég að sumir telja að ég sé ekki í sambandi við þann veruleika sem fjölmargir upplifa á hverjum degi.  Umferð sem silast áfram, bíll við bíl svo langt sem augað eygir. 

Ég þekki þetta mjög vel.  Á hverjum morgni mæti ég þessari umferð.  Ég bý miðsvæðis og vinn í úthverfi svo ég fæ að horfa á þessa umferð á meðan hún silast á móti mér. 

Af hverju held ég því samt fram að það sé ekkert að umferðarmannvirkjunum okkar og að engu þurfi að bæta við? 

Svarið er einfalt.  Við nýtum umferðarmannvirkin okkar fáránlega illa.  Til þess að nýta þessi mannvirki betur verðum við að taka upp nýjan hugsanahátt. 

Það er ekkert sem segir að eina leiðin til og frá vinnu sé að sitja í bíl með fjórum auðum sætum.  Bíll tekur jafnmikið pláss á vegi sama hversu margir sitja í honum.  Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem ég sé á leið til vinnu sitja einir í bíl og eru í raun að sóa dýrmætu vegplássi sem hægt væri að nýta marfalt betur.

Allar þær lausnir sem miða að því að nýta gatnakerfi borgarinnar betur eiga eitt sameiginlegt.  Þær borga með sér. 

Á tímum hækkandi eldsneytisverðs er ökuferðin í og úr vinnu langt frá því að vera ókeypis.  Vinnustaður minn er í 6 kílómetra fjarlægð frá heimilinu  Það gera 12 kílómetrar á dag.  Ef ég ek um á bíl sem eyðir 10 l/km þá kostar hver dagur rúmlega 280 krónur bara í bensínkostnað.  Það gera 5600 krónur á mánuði.  Inni í þessari tölu er ekkert annað en bara bensín.  Annar rekstrarkostnaður leggst þar ofaná svo sem slit á dekkjum, smurning og annað slit.

Ég legg mitt af mörkum til að nýta umferðarmannvirkin betur.  Ég hjóla flesta daga til vinnu.  Á reiðhjóli hef ég aldrei lent í umferðarteppu.  Þetta er fín hreyfing sem borgar með sér.  Rúmlega 280 krónur á dag.  Svo má ekki gleyma því að eftir því sem reiðhjólum fjölgar fækkar bílum á götunni. 

Önnur leið til að nýta gatnakerfið betur er að fólk taki sig saman í bíl.  Mjög algengt form erlendis en hefur ekki náð neinni fótfestu svo heitið geti á íslandi.   Það er í raun allt sem mælir með því að menn taki sig saman og samnýta bíla.  Eldsneytiskostnaður á haus lækkar eftir því sem fleiri eru í bílnum, því fleiri sem eru í hverjum bíl því færri bíla þarf til að flytja sama fjölda fólks og ekki má heldur gleyma því að ökuferðin til og frá vinnu verður ánægjulegri í góðum félagsskap.

Þriðja leiðin til að nýta umferðarmannvirkin betur er sú að nýta almenningssamgöngur í meira mæli.  Ég ætla þó ekki að mála upp neina rósrauða mynd af kostum almenningssamgangnakerfi borgarinnar.  Strætisvagnakerfið þar að bæta en það hefur alla burði til að verða að mjög góðum ferðamáta fyrir fjölda fólks.

Það er í raun kominn tími til að við hættum að óska eftir rándýrum og óhagkvæmum umferðarmannvirkjum.  Við þurfum að fara að hugsa meira út fyrir kassann. 

Þá er ég að tala um kassann sem er á fjórum hjólum.

umferd


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband