Bloggfærslur mánaðarins, september 2012
Þriðjudagur, 11. september 2012
Á ég að kjósa?
Ég er vanur að kjósa í öllum þeim kosningum sem ég á kost að kjósa í.
Ég kýs í Alþingis, sveitastjórnarkosningum, þjóðaratkvæðagreiðslum, stjórnlagaþingkosningum og prófkjörum míns flokks.
Ég set þó spurningarmerki við næstu kosningar sem mér fæ að taka þátt í. Ég set spurningarmerki við spurninguna og hvernig svar mitt verður túlkað. Ég set spurningarmerki við það hversu marktæk niðurstaðan verður. Ég set spurningarmerki við hvort ég eigi að kjósa.
Sú vinna sem þingmeirihlutinn hefur lagt í málið fær mig til að unnið sé eftir kjörorðinu "Kapp er best án forsjár." Eins og verið hefur með allt of mörg mál sem farið hafa í gegnum Alþingi.
Við fáum sex spurningar og öllum þeim fáum við að svara með því að seta kross fyrir framan já eða nei. Af þessum sex spurningum er ein spurning sem hægt er að svara með já eða nei svo vilji kjósanda sé ljós.
Mér er hugsað til spurningar Stellu í orlofi þegar hún spurði "Hver á þennan bústað? Já eða nei."
Í myndinni var spurningin fyndin. Í þjóðarathvæðagreiðslu er spurningin ekki fyndin. Þrátt fyrir það fáum við nokkrar spurningar í þeim stíl.
1. Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?
- Já, ég vil að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.
- Nei, ég vil ekki að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.
Í þessari spurningu er ekki verið að spyrja hvort ég sé að samþykkja tillögur stjórnlagaráðs. Það er verið að spyrja hvor ég vilji að tillögur stjórnlagaráðs séu nýttar sem vinnuplagg sem Alþingi er í sjálfsvald sett hversu mikið verður nýtt.
Svari ég já veit ég ekkert hvað á að nýta og hvað ekki.
2. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?
- Já.
- Nei.
Hvað er náttúruauðlind? Hvað er átt við með þjóðareign?
Eru krækiber á hálendinu náttúruauðlind í þjóðareign og má ég þá tína þau eða ekki?
Er Þjóðleikhúsið í þjóðareign og má ég þá gera það sem mér sýnist þar inni vegna þess að ég á húsið?
Er rokið náttúruauðlind? Hvernig á að stjórna því?
3. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?
- Já.
- Nei.
Hvernig á ákvæðið að hljóma. Þessi spurning er eins og óútfyllt undirrituð ávísun. Það er ætlast til að ég svari án þess að vita hvað svarið er.
4. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?
- Já.
- Nei.
Hvaða form á persónukjöri er verið að tala um. Á að sameina prófkjör og Alþingiskosningar í einar kosningar eða á að gera Alþingiskosningar með sama formi og stjórnlagaþingkosningar fóru fram.
5. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?
- Já.
- Nei.
Þessi spurning sker sig úr á þessum lista því svarið við spurningunni er já eða nei og ekkert rúm til túlkunar.
6. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?
- Já.
- Nei.
Hversu hátt hlutfall kjósenda og hvaða form á að hafa á því. Verður hægt að krefjast þess að öll máli geti farið fyrir þjóðaratkvæði. Má ég eiga von á því að fjárlögin fari fyrir þjóðaratkvæði á hverju ári.
Sem kjósandi sem tek mitt hlutverk alvarlega á ég í miklum vanda. Á ég að mæta á kjörstað eða ekki? Hvernig á ég að svara þegar hægt er að túlka svörin hjá mér á hvern þann hátt sem hentar hverju sinni.
Ríkisstjórnin sem nú situr leggur allt kapp á að þessar kosningar verði haldnar þar sem við svörum á óljósan hátt ókláruðu máli á þann hátt að ekki er hægt að sjá hver vilji þjóðarinnar er.
Sama ríkisstjórn vill alls ekki að þjóðin sé spurð hvort sækja eigi um aðild að ESB eða hvort halda eigi aðlögun áfram.
Við þeirri spurningu er svarið já eða nei.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)