RFV - Hausmynd

RFV

Horft af brúnni

Í gær stóð ég á einni göngubrúnni yfir Miklubraut og horfði á þrjár akreinar yfirfullar af bílum.  Sjálfum þykir mér hundleiðinlegt að vera bíl hálfföstum í umferð og ég get ekki ímyndað mér að nokkur annar geti haft ánægu af því að sitja í bíl og hafa ekkert annað að horfa á í lengri tíma en afturendann á bílnum fyrir framan. 

Ég fór að velta fyrir mér hvort það væri ekki til einhver lausn á þessum umferðarvanda.  Lausn sem við myndum öll græða á.

Þessi umferðarþungi er ekki bara að kosta tíma.  Hann er líka að kosta peninga.  Peninga sem brenna upp í vélinni.  Bíllinn eyður mun meira eldsneyti á því að vera stöðugt að stöðva og taka af stað aftur.   Í stað þess að aka á jöfnum hraða.

Ekki má gleyma kostnaði samfélagsins við viðhald vega.  Því meiri sem umferðin er því meiri þörf er á viðhaldi veganna.  Það er kostnaður sem lendir á okkur öllum

Þessi umferðarþungi er ekkert náttúrulögmál. 

Það á ekki að þurfa að eyða meiri tíma kyrrstæður í bíl á Miklubrautinni en á ferð.

Göturnar þurfa ekki að fyllast af bílum tvisvar á dag þegar fólk hópast í og úr vinnu.

Lausnirnar eru nokkrar og eiga það allar sameiginlegt að borga með sér frá fyrsta degi.

Flestir bílarnir á götunum eru gerðir fyrir fjóra farþega og einn ökumann.  Samt eiga flestir bílarnir það sameiginlegt að í þeim er ökumaður en engin farþegi.  Það er augljóst að því fleiri sem eru í hverjum bíl því færri bílar þurfa að vera á götunum á sama tíma.

Fólk sem býr í sama hverfi og vinnur á svipuðum slóðum getur skipst á að aka hvort öðru í vinnuna.  Ef fjórir fara saman í bíl þá er eldsneytiskostnaðurinn á hvern 25% af því sem hann væri ef aðeins einn væri í bílnum og það væri þrem bílum færra á götunni.

Það eru líka til fleiri ferðamátar en einkabíllinn.

Það er líka hægt að taka Strætó.  Fyrir hvern farþega þar sem ákveður að skilja bílinn eftir heima og taka strætó er einum bíl færra í umferðinni.  Þar munar um hvern og einn.  Svo má ekki gleyma því að á Miklubrautinni hefur Strætó sér akrein þar sem hann brunar framúr kyrrstæðum einkabílum.

Sjálfur fer ég oftast hjólandi í vinnuna.  Hjólaleiðum í borginni hefur farið fjölgandi og stefnt er á að fjölga þeim mun meira á komandi árum.   Það er hægt að hjóla nær alla daga ársins og í mínu tilfelli munar það um 10 mínútum á ferðatíma við bestu aðstæður á bíl og að fara á hjóli.  Það er tími sem mér þykir mjög vel varið.  Ég nýti tíman sem fer í ferðalög í og úr vinnu til hreyfingar.

Það er nokkuð ljóst að það er hægt að leysa umferðarvandann ef við viljum. 

Ég legg mitt af mörkum.  Hvað með þig?

 umferd

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband