RFV - Hausmynd

RFV

Hann er frjáls

Árið 2006 skrifaði ég færslu um ósk mína um að óþekkta embættismanninum yrði veitt frelsi og hann fluttur út úr læstum garði umkringdur steypu og rimlum þar sem hann hefur mátt dúsa undanfarin ár.

Nú er hann fluttur og frjáls.

Örugglega allt mér að þakka.

IMG_3395

Á ég að kjósa?

Ég er vanur að kjósa í öllum þeim kosningum sem ég á kost að kjósa í. 

Ég kýs í Alþingis, sveitastjórnarkosningum, þjóðaratkvæðagreiðslum, stjórnlagaþingkosningum og prófkjörum míns flokks.

Ég set þó spurningarmerki við næstu kosningar sem mér fæ að taka þátt í.  Ég set spurningarmerki við spurninguna og hvernig svar mitt verður túlkað.  Ég set spurningarmerki við það hversu marktæk niðurstaðan verður. Ég set spurningarmerki við hvort ég eigi að kjósa.

Sú vinna sem þingmeirihlutinn hefur lagt í málið fær mig til að unnið sé eftir kjörorðinu "Kapp er best án forsjár."  Eins og verið hefur með allt of mörg mál sem farið hafa í gegnum Alþingi. 

Við fáum sex spurningar og öllum þeim fáum við að svara með því að seta kross fyrir framan já eða nei.  Af þessum sex spurningum er ein spurning sem hægt er að svara með já eða nei svo vilji kjósanda sé ljós.

Mér er hugsað til spurningar Stellu í orlofi þegar hún spurði "Hver á þennan bústað?  Já eða nei." 

Í myndinni var spurningin fyndin. Í þjóðarathvæðagreiðslu er spurningin ekki fyndin.  Þrátt fyrir það fáum við nokkrar spurningar í þeim stíl.

1. Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?

  • Já, ég vil að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.
  • Nei, ég vil ekki að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.

Í þessari spurningu er ekki verið að spyrja hvort ég sé að samþykkja tillögur stjórnlagaráðs.  Það er verið að spyrja hvor ég vilji að tillögur stjórnlagaráðs séu nýttar sem vinnuplagg sem Alþingi er í sjálfsvald sett hversu mikið verður nýtt.

Svari ég já veit ég ekkert hvað á að nýta og hvað ekki.

2. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?

  • Já.
  • Nei.

Hvað er náttúruauðlind?  Hvað er átt við með þjóðareign?

Eru krækiber á hálendinu náttúruauðlind í þjóðareign og má ég þá tína þau eða ekki?

Er Þjóðleikhúsið í þjóðareign og má ég þá gera það sem mér sýnist þar inni vegna þess að ég á húsið?

Er rokið náttúruauðlind?  Hvernig á að stjórna því?

3. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?

  • Já.
  • Nei.

Hvernig á ákvæðið að hljóma.  Þessi spurning er  eins og óútfyllt undirrituð ávísun.  Það er ætlast til að ég svari án þess að vita hvað svarið er. 

4. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?

  • Já.
  • Nei.

Hvaða form á persónukjöri er verið að tala um.  Á að sameina prófkjör og Alþingiskosningar í einar kosningar eða á að gera Alþingiskosningar með sama formi og stjórnlagaþingkosningar fóru fram. 

5. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?

  • Já.
  • Nei.

Þessi spurning sker sig úr á þessum lista því svarið við spurningunni er já eða nei og ekkert rúm til túlkunar. 

6. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?

  • Já.
  • Nei.

Hversu hátt hlutfall kjósenda og hvaða form á að hafa á því.  Verður hægt að krefjast þess að öll máli geti farið fyrir þjóðaratkvæði.  Má ég eiga von á því að fjárlögin fari fyrir þjóðaratkvæði á hverju ári.

Sem kjósandi sem tek mitt hlutverk alvarlega á ég í miklum vanda.  Á ég að mæta á kjörstað eða ekki?  Hvernig á ég að svara þegar hægt er að túlka svörin hjá mér á hvern þann hátt sem hentar hverju sinni.

Ríkisstjórnin sem nú situr leggur allt kapp á að þessar kosningar verði haldnar þar sem við svörum á óljósan hátt ókláruðu máli á þann hátt að ekki er hægt að sjá hver vilji þjóðarinnar er.

Sama ríkisstjórn vill alls ekki að þjóðin sé spurð hvort sækja eigi um aðild að ESB eða hvort halda eigi aðlögun áfram.

Við þeirri spurningu er svarið já eða nei.

thingmannaleid

Stöðumælar

Þegar kemur að málefnum miðborgarinnar virðist flest sem frá borgarstjórn kemur vera gert af góðum hug en vanhugsað. 

Nýlega voru stöðugjöld hækkuð verulega.  Eins og gefur að skilja voru kaupmenn ekkert hamingjusamir með það.  Svör borgarinnar voru á þá leið að hækkun á stöðugjöldum myndi koma kaupmönnum vel, hvort sem þeim það líkar betur eða verr. 

Sem fyrr var ekkert samráð haft við hagsmunaaðila og þeim sagt að sætta sig við orðin hlut.

Helstu rökin fyrir hækkuninni voru þau að þetta myndi verða til þess að bílar væru styttri tíma á stæðum og nýting stæðana yrði betri og fleiri kæmu til að versla.   Vissulega myndi þetta þýða að sumir myndu stöðva skemur í stæði.  Þetta mun líka verða til þess að einhverjir leggja ekki í stæði og fara þar sem bílastæði eru ókeypis.

Það hefur lengi loðað við vinstri framboðin að lausn allra mála sé að hækka gjaldskrár en gera sér ekki grein fyrir að hækkanirnar eru oftar að auka vandan.

Ég er þeirrar skoðunnar að nú sé tími til að endurhugsa algerlega bílastæðamál miðborgarinnar.

Til að auka umferð á að gera skammtímastæði gjaldfrjáls fyrsta hálftímman. 

Stór ókostur við stöðumælakerfið eins og það er í dag er þörfin fyrir smápeninga. Í dag nýta flestir rafræna greiðslumiðla og eru almennt ekki með lausan pening á sér.  Hvorki seðla né klink.  Í dag er fólk í mörgum tilfellum að hika við að stöðva í miðbænum vegna þess óhagræðis sem stöðumælar eru og fara þess í stað þar sem bílastæði eru ókeypis.

Í stað stöðumæla er kominn tími til að bílar í Reykjavík fái skífur í stíl við þær sem eru notaðar á Akureyri.  Á þann hátt er hægt að nýta stæðin betur og hraðar. 

Umfram allt er kominn tími fyrir borgarstjórnina að tala við hagsmunaaðila og finna lausn sem allir geta sæst á. 

IMG_8829

Feilspor Umhverfisstofnunar

Þegar farið er inn á heimasíðu Umhverfisstofnunar er hlutverk hennar skýrt á einfaldan hátt.

"Hlutverk Umhverfisstofnunar er að stuðla að velferð almennings með því að beita sér fyrir heilnæmu umhverfi, öruggum neysluvörum og verndun og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda."

Umhverfisstofnun hefur einnig sett sér markmið um í umhverfismálum og verð ég að segja að þau eru til mikillar fyrirmyndar.

Markmið Umhverfisstofnunar í umhverfismálum

  • Innkaup stofnunarinnar verði byggð á stefnu ríkisins um vistvæ innkaup. Umhverfismerktar vörur og þjónusta verða valin umfram aðrar.
  • Neikvæð umhverfisáhrif vegna notkunar á samgöngutækjum á vegum Umhverfisstofnunar verði lágmörkuð. Notkun á hráefnum, orku og vatni sömuleiðis. Árlega verður birt endurskoðað grænt bókhald stofnunarinnar hér á vefnum.
  • Endurnýtanlegur úrgangur verði flokkaður og skilað til endurnýtingar.
  • Spilliefnum verði skilað til viðurkenndra móttökuaðila.
  • Fræðsla til starfsfólks um umhverfismál og innra umhverfisstarf verði aukin. Starfsfólk verði hvatt til þess að tileinka sér vistvænni lífsstíl.

Umhverfisstofnun hefur gert margt gott.  Meðal annars hefur bíl verið skipt út fyrir rafmagnsvespu á Mývatni og  tvö reiðhjól verið keypt fyrir styttri ferðir í Reykajvík.  Þau gera sér grein fyrir því að allt smátt telur þegar kemur að umhverfisvernd.

Nýlega sá ég þó eitt feilspor sem stofnunin hefur tekið í sínum samgöngumálum. 

Á Bjargtöngum starfar landvörður á vegum umhverfisstofnunar og eftir því sem ég fékk séð vinnur hann og hópur sjálfboðaliða mikið og gott starf þar.

Landvörðurinn hafði til umráða bíl sem að við fyrstu sýn er fullkominn í það sem hann er ætlaður.  Fjórhjóladrifin pallbíll sem gengur fyrir metangasi.

Kostir metanbíla eru að þeir menga minna, eru ódýrari í rekstri og nýta innlendan orkugjafa.  Með öðrum orðum þá mætti halda að þessi bíll væri umhverfisvænasti kosturinn í verkið. 

Þrátt fyrir að aftaná bílnum standi stórum stöfum að þetta sé metanbíll er staðreyndin sú að þessi bíll er ekki metanbíll. 

Þetta er bensínbíll með V6 mótor.

Ekki að ég sé að ásaka hið góða fólk sem hjá starfar umhverfisstofnum um ósannindi.  Þessi bíll er vissulega með metantank og vél sem getur gengið fyrir metangasi. Vandamálið er að það eru rúmir 400 kílómetrar í næstu metandælu og þegar metangasið á klárast á tanknum tekur bensínið við.  Það vita allir sem vilja vita að sex strokka bensínbíll hvorki hagkvæmasti né umhverfisvænasti kosturinn.

Í þessu tilfelli hefði pallbíll með sparneytinni diselvél hentað mun betur. 

IMG_1142

Sirkus

Eftir áralanga bið hefur Ísland loksins eignast sinn eigin sirkus.

Nú er bara að bíða eftir sirkustjaldi.

IMG_9099

Halli

Margar opinberar stofnanir eru reknar með halla.

Ég veit ekki hvernig staðan er á bílastæðasjóði en þessi stöðumælir hallar.

IMG_8829

Þokan

Margt býr í þokunni.

Ég var á sama stað áður en þokan kom.

Það bjó alveg jafn mikið þarna fyrir þokuna.

IMG_7642

Tjaldstæði

Í Laugardalnum er tjaldstæði sem fyllist af ferðamönnum á sumrin.

Þessi tjöld sá ég í París.

Ég held að þetta séu ekki ferðamenn.


Fornbíll

17. júní mæta fornbíla eigendur með fornbílana sína á hafnarbakkann fyrir okkur hin að skoða.

Þar sá ég bíl sem var sömu gerðar og á svipuðum aldri og einn heimilisbíllinn þegar ég var að alast upp.

Hann var ekki kallaður fornbíll.

Þetta var bíll.

IMG 1420

Lundinn

Nú er lundinn búinn að sækja gras á yfirborðið til að fóðra holuna neðanjarðar.

IMG_7573

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband